Hvernig byrja ég?

Velkomin/n í notendahandbók Wagtail. Fyrst þú ert á annað borð komin/n hingað veistu líklegast nú þegar að Wagtail er vefumsjónarkerfi (CMS) sem búið var til af Torchbox. Wagtail er opinn hugbúnaður og þróað í sameiningu af alþjóðlegu teymi forritara og hönnuða. Wagtail er frábært vefumsjónarkerfi fyrir margs konar vefsíður því það er auðvelt fyrir forritara að sníða það að eigin þörfum án mikillar fyrirhafnar.

Þessi kennsluvefur er samansafn af stuttum leiðarvísum, útskýringum, uppflettigreinum og fleiru sem hjálpa þér að læra að ritstýra og sjá um efni í staðlaðri Wagtail vefsíðu. Ef þú ert ritstjóri, stjórnandi eða almennur notandi Wagtail, þá er þessi kennsluvefur fyrir þig. Ef þú ert forritari, gæti verið að þú sért frekar að leita að þróunarskjölun Wagtail.

Ef þú hefur mjög litla reynslu af Wagtail mælum við með því að þú farir í gegnum leiðarvísana okkar í röð. Ef þú hefur einhverja eða þó nokkra reynslu gæti hentað betur að skoða flokkana hér fyrir neðan til að fræðast betur um ákveðna hluta Wagtail.

Wagtail sýnivefurinn

Dæmin í þessum leiðarvísi eru byggð á bakerydemo sýnivefnum. Þessar leiðbeingar eru þó nægilega almennar til að eiga við um nánast hvaða Wagtail vefsíðu sem er.

Á þessum kennsluvef munum við notast við vefslóðina www.example.com, til að tákna lén vefsíðunnar.

Innskráning

  • Fyrsta aðgerð ritstjóra eða stjórnanda vefs er að skrá sig inn á stjórnborðið.
  • Þú kemst í stjórnborðið með því að skrifa /admin fyrir aftan vefslóð vefsíðunnar þinnar (til dæmis www.example.com/admin).
  • Sláðu inn notandanafnið þitt og lykilorðið og smelltu á Sign in.