Nýtt í Wagtail 4.1
Á þessari síðu
- Skjölun þegar þú þarft á henni að halda
- Endurhannaður síðu ritill
- Betri textaritill
- Bætt aðgengi og stuðningur við Windows High Contrast stillingar.
- Ný leið til að forskoða síður
- Einfaldari tímastilling á birtingu síðna
- Litaðu vefkerfið eins og þú vilt hafa það.
- Notkunar skýrslur
- Öflugri snifsi
- Vefsvæðis-stillingar fyrir vefumsjónarkerfi með marga undirvefi
Wagtail er svolítið eins og bókasafn, fullt af allskonar flottri virkni og flest ættu að geta fundið eitthvað sem þau elska við það. Forritarar elska hversu auðvelt er að byggja við kóðann, höfundar elska viðmótið til að búa til efni, sem hannað er sérstaklega fyrir þá, og stjórnendur kunna að meta skýrslur og tól sem hjálpa þeim að halda utan um notendurna þeirra sem og efnið sem þeir búa til.
Í Wagtail 4.0 og 4.1 höfum við gert umfangsmiklar breytingar á síðuritlinum og fleiri tólum sem styðja við alla í vefumsjónarteyminu — frá vefstjóranum ritstýrir efni og myndum vefsins til sölumanneskjunnar sem er að birta nýja grein eða frétt. Kíkjum aðeins á þessa nýju virkni og breytingar sem þú finnur í nýjustu útgáfum Wagtail.
Skjölun þegar þú þarft á henni að halda
Frá og með Wagtail 4.1, þá verður aðgengileg ný "Hjálp" valmynd með hlekkjum í skjölun fyrir notendur. Þessa hlekki má aðlaga fyrir hvert verkefni, eða benda beint á skjölun Wagtail.
Við höfum einnig bætt við áberandi borða á aðalsíðuna, svo að fólk sem er að nota nýja útgáfu Wagtail í fyrsta skipti fær skýra ábendingu um að skoða skjölunina.
Endurhannaður síðu ritill
Þegar þú skráir þig inn í Wagtail 4.0 tekurðu strax eftir að síðuritillinn hefur verið endurhannaður frá grunni. Þökk sé rausnarlegum stuðningi frá Google hefur útlit, form og virkni verið uppfærð til að gefa þeim sem skrifa efni eins góða upplifun og hægt er. Hinn svokallaði StreamField hefur fengið andlitslyftingu til að gera allt ferlið þægilegra og nú er enn auðveldara en áður að búa til blokkir inni í blokkum. Þú tekur einnig eftir því að allir hlutar síðuritilsins eru samanfellanlegir sem ætti að minnka vegalengdina sem þú þarft að skruna upp og niður skjáinn þegar þú ert með efnismikla síðu. Af því að – og við vitum öll hvernig það er – enginn vill skruna endalaust nema það sé gegnum TikTok myndbönd af sætum dýrum.
Í Wagtail 4.1 gengum við enn lengra og bættum við nýjum hnappi til að fella saman alla hluta síðunnar í einu, auk þess sem við kynnum til sögunnar lítið yfirlitskort yfir síðuna. Það sýnir þér alla síðuhlutana í einu og auðveldar þér að finna staði á löngum síðum, auk þess sem það verður auðveldara að finna villur í innsetningu.
Betri textaritill
Þegar síðuritillinn var uppfærðu voru miklar breytingar gerðar á textaritlinum. Höfundar geta nú sniðið texta og búið til textablokkir með "/" skástrik skipun í byrjun línu. Þeir sem eru þreyttir á að velja texta og smella á takka til að sníða texta munu elska þessa virkni því nú getur þú skipt frá venjulegum texta yfir í númeraðan lista, yfir í fyrirsögn og í texta aftur án þess að fingurnir yfirgefi lyklaborðið. Þú getur einnig notað skástriks skipunina, eða litla græna plús takann sem hún virkjar, til að skipta blokkum í tvennt, og bæta nýjum blokkum inn á milli.
Tenglar eru nú sjálfkrafa stofnaðir. Þegar þú afritar og límir vefslóð í textaritil mun hann sjálfkrafa sjá um að búa til tengil úr honum, í stað þess að þú þurfir handvirkt að breyta vefslóð í tengil. Við gerðum það einnig auðvelt að taka aftur svona sjálfvirkar snið aðgerðir, eins og það að það stofnist númeraður listi þegar þú skrifar "1." Wagtail 4 textaritillinn hefur einnig aukið við stuðning við tungumál sem eru skrifuð frá hægri til vinstri.
Önnur gagnleg uppfærsla á textaritlinum er stafateljarinn sem er hægt að birta undir honum. Ef þú ert með höfunda sem fara stöðugt yfir hámarkið geta þeir nú sjálfir fylgst með því hversu marga stafi er búið að skrifa í hverja blokk.
Bætt aðgengi og stuðningur við Windows High Contrast stillingar.
Stærstu endurbæturnar eru hlutir sem margir notendur taka ekki endilega eftir strax. En við erum að vona að notendur sem nota að mestu lyklaborð eða skjálesara í sinni tölvunotkun muni fá betri upplifun því við erum búin að samræma staðsetningar á hjálpartextum og villuboðum í gegnum allt kerfið. Við gerðum hjálpartextabólur aðgengilegri og bættum einnig úr aðgengismálum á innskráningarsíðunni fyrir Wagtail með því að laga uppbygginguna á henni ásamt því að bæta við hlekk í aðalefnið og skilaboðum fyrir skjálesara.
Stærsti aðgengismálasigur í Wagtail 4.0 er bættur stuðningur við Windows High Contrast stillingarnar. Windows High Contrast er virkni gagnast mjög notendum með skerta sjón eða mikið ljósnæmi. Með þessum viðbótum hefur Wagtail eignast mikið af stílum og einingum til að styðja við liti sem Windows High Contrast stillingar krefjast og býður notendum þess upp á bætta upplifun.
Ný leið til að forskoða síður
Í stað þess að þurfa að opna nýjan flipa eða vafraglugga til að forskoða síðuna þína, þá býður Wagtail 4.0 upp á forskoðun í rauntíma í hliðarfleka innan síðuritilsins. Í þessum fleka geta höfundar efnis forskoðað hvernig síðan mun líta út í mörgum mismunandi skjátækjum án þess að þurfa að nota innbyggða virkni vafrans til þess. Með örfáum smellum er hægt að sjá hvernig síðan mun líta út í síma, á spjaldtölvu og á tölvuskjá. Einnig er hægt að opna venjulega forskoðun ef þú vilt, en við höldum að þú munir elska nýju forskoðunina svo mikið að þú munir aldrei vilja opna forskoðun aftur í nýjum glugga.
Einfaldari tímastilling á birtingu síðna
Í Wagtail 4.1 er ennþá auðveldara að stilla hvenær síða á að fara í loftið. Í upplýsinga hliðarvalmyndinni er nú hægt að stilla beint tímasetningu, sem sjálfkrafa vistar síðuna, og uppfærir upplýsingar um hvenær síðan á að fara í loftið (og hvenær hún á mögulega að fara úr loftinu)
Litaðu vefkerfið eins og þú vilt hafa það.
Líkar þér ekki við litina sem við völdum fyrir Wagtail 4.0? Viltu nota litina úr merki fyrirtækisins? Viltu hafa meiri andstæður í litum fyrir notendur þína? Nú er hægt að sérsníða útlitið í Wagtail með þemum. Ef þú saknar gamla græna litarins virkilega mikið og ert ekki á sömu bláu línu og við getur þú skipt auðveldlega í gamla litinn. Við verðum kannski pínu leið ef þú gerir það, en við skiljum líka að það eru ekki allir ein og þú mátt hafa hlutina eins og þú vilt.
Notkunar skýrslur
Fram til þessa þá hefur verið erfitt að nálgast notkunar upplýsingar fyrir mismunandi gerðir efnis og hefur það krafist sérstillinga af hendi forritara. Frá og með Wagtail 4.1 eru upplýsingar um notkun alltaf aðgengilegar, og auðvelt að nálgast þær, burtséð frá stærð vefsíðunnar.
Hérna má sjá hvernig notkunar upplýsingar líta út fyrir snifsi:
Öflugri snifsi
Ef þú skoðar betur skjáskotið hér að ofan, þá geturðu séð að það er ýmislegt nýtt að gerast með snifsin! Nú er hægt að stilla þau þannig að þau haldi utan um söguna, hægt að vista uppköst, og tímastilla hvenær þau fara í loftið.
Vefsvæðis-stillingar fyrir vefumsjónarkerfi með marga undirvefi
Þið sem eruð með margar vefsíður í einu Wagtail kerfi, fagnið! Með því að kynna til sögunnar stillingar fyrir vefsvæði þarftu ekki að setja inn stillingar fyrir hvert vefsvæði aftur og aftur. Nýtt gagnamódel sem heitir BaseGenericSetting leyfir þér að skilgreina stillingar sem deilast á milli margra vefsvæða í stað þess að bæta við stillingum fyrir hvert einasta vefsvæði.